Launakönnun 2015

Launakönnun SFR er gerð í samstarfi við VR og St.Rv. Könnunin er unnin af Gallup og er ein stærsta og veigamesta launa- og vinnumarkaðskönnun landsins.

Helstu niðurstöður könnunarinnar sýna að heildarlaun SFR félaga í fullu starfi hækkuðu um rúmlega 22 þúsund krónur frá því í janúar í fyrra. Þetta er tæplega 6% hækkun. Í könnuninni fyrir ári hækkuðu heildarlaun um 7% og árið þar áður um 6%. Meðaltal heildarlauna í könnuninni nú voru 421 þúsund en voru 398 þúsund fyrir ári og 372 þúsund krónur fyrir tveimur árum fyrir fullt starf. Þá eru laun fyrir 70-99% starf uppreiknuð í 100% starf. Karlar hækkuðu um tæpar 25 þúsund krónur (rúm 5%) og laun kvenna hækkuðu um rúmar 19 þúsund krónur (rúm 5%).

Samanlagt gefa þessar upplýsingar skýra mynd af þeirri þróun sem er á launum og starfsskilyrðum félagsmanna SFR á milli ára. Könnunin var unnin af Gallup í febrúar og mars 2015 og var framkvæmd með líkum hætti og síðustu ár. Spurt var um laun greidd þann 1. febrúar 2015.

Alls sendu tæplega 2.500 SFR félagar inn lista, en rúmlega 2.300 svör voru notuð við úrvinnsluna. Svarhlutfall var 54%. Af þeim sem svöruðu voru konur 69% og karlar 31% og eru karlar lítið eitt fleiri núna en í síðustu könnun þegar þeir voru um 29% af svarendum.

Trúnaður
SFR áréttar að alger trúnaður ríkir við framkvæmd könunnarinnar. Ströngum reglum er fylgt af Gallup við vinnslu gagnanna og geymslu þeirra. Öllum úrtakslistum er eytt þegar niðurstöður hafa verið birtar og verkefninu formlega lokið.

Spurt var um laun fyrir janúarmánuð greidd þann 1. febrúar 2015. Helstu niðurstöður könnunarinnar sýna að heildarlaun SFR félaga í fullu starfi hækkuðu um rúmlega 22 þúsund krónur frá því í janúar í fyrra. Þetta er tæplega 6% hækkun. Í könnuninni fyrir ári hækkuðu heildarlaun um 7% og árið þar áður um 6%.

Meðaltal heildarlauna í könnuninni nú voru 421 þúsund en voru 398 þúsund fyrir ári og 372 þúsund krónur fyrir tveimur árum fyrir fullt starf. Þá eru laun fyrir 70-99% starf uppreiknuð í 100% starf. Karlar hækkuðu um tæpar 25 þúsund krónur (rúm 5%) og laun kvenna hækkuðu um rúmar 19 þúsund krónur (rúm 5%).
Grunnlaun SFR félaga í fullu starfi hækkuðu um tæplega 16 þúsund krónur milli ára, en hækkunin var um 20 þúsund krónur fyrir ári. Þetta er tæplega 5% hækkun, en launin hækkuðu um 6% fyrir ári. Meðaltal grunnlauna í könnuninni nú voru 350 þúsund, en voru 334 þúsund fyrir ári en 314 þúsund krónur fyrir fullt starf fyrir tveimur árum. Karlar fengu tæplega 370 þúsund í grunnlaun og hækkuðu um rúmlega 20 þúsund (tæp 6%) og konur fengu rúmlega 341 þúsund og hækkuðu um tæplega 14 þúsund (rúm 4%). Þá er miðað við fullt starf.
Eins og áður sagði er tæp 6% hækkun á heildarlaunum og tæp 5% hækkun á grunnlaunum.

Grunnlaun fólks í skrifstofustörfum við afgreiðslu hækkar mest, eða um 7% og grunnlaun sérhæfðs starfsfólks og tækna hækka álíka mikið. Heildarlaun sölu- og afgreiðslufólks hækka mest, eða um 9%. Grunnlaun annarra starfsstétta hækkuðu um 4-5% og heildarlaun um 3-6%.

Í töflunni hér að neðan má sjá hækkun heildarlauna eftir starfsstéttum og kyni síðustu þrjú ár. Eins og sjá má hafa karlar hækkað meira en konur í sölu og afgreiðslustörfum, sé litið til hækkunar síðustu þriggja ára, en konur hafa hækkað meira en karlar í skrifstofustörfum. Mest áberandi er þó að konur hafa hækkað mun meira en karlar í skrifstofustörfum við afgreiðslu, eða um 20% en karlar hafa einungis hækkað um 7% til samanburðar. Laun karla í þessum hópi eru enda orðin lægri en kvenna. Að öðru leyti er hækkun karla og kvenna svipuð.

 Karlar 2013 2014 2015 Hækkun frá 2012
 Stjórnunarstörf 8%  2% 9%  20%
 Sérfræðingar með háskólamenntun   5%    6% 2%  13% 
 Sérhæft starfsfólk og tæknar  14%  6% 5%  26%
 Sölu-/afgreiðslufólk  -5%   9%   14% 18% 
 Skrifstofustörf   10%  6% 1%  17%
 Skrifstofustörf í afgreiðslu  15% 9%  -15%  7%
 Önnur störf  2% 13%   4% 19% 

 

Konur 2013 2014 2015 Hækkun frá 2012
 Stjórnunarstörf 9%  5% 3%  18%
 Sérfræðingar með háskólamenntun  3%    0%  12%  15% 
 Sérhæft starfsfólk og tæknar 9% 8%
7%  26%
 Sölu-/afgreiðslufólk 7%   5%  3% 15% 
 Skrifstofustörf 7%  8% 4%  20%
 Skrifstofustörf í afgreiðslu 3%  8%  8%  20%
 Önnur störf 8%  4%  5% 19% 

Þegar launamyndun fólks í fullu starfi er skoðuð eftir starfsstéttum og kyni má sjá að karlar fá hærri heildarlaun en konur í öllum starfstéttum. Grunnlaun karla og kvenna eru á hinn bóginn áþekk, sérstaklega í stjórnunarstörfum og skrifstofustörfum. Launamunur karla og kvenna í fullu starfi verður fyrst og fremst til vegna aukagreiðslna sem karlar fá umfram konur.

Vinnutími fólks í fullu starfi á viku helst því sem næst óbreyttur milli mælinga. Vinnutími karla er að meðaltali 45,5 stundir en kvenna 41,6 stundir. Þetta eru áþekkar tölur og má sjá í vinnumarkaðskönnun Hagstofu Íslands, en þar mælist vinnutími karla í fullu starfi 47,4 tímar en vinnutími kvenna í fullu starfi 40,5 tímar á fyrsta ársfjórðungi 2015.<br />
<br />
Hlutfall karla og kvenna í fullu starfi breytist einnig lítið og um 90% karla eru í fullu starfi og 70% kvenna. Fyrir ári voru þó heldur fleiri konur í fullu starfi, eða tæp 72%
Þegar spurt er hvað sé innifalið í heildarlaunum nefna tæplega 80% einhverjar greiðslur. Hlutfallið lækkar aðeins á milli ára en í fyrra fengu 83% aukagreiðslur. Um 37% fá yfirvinnugreiðslur og hefur hlutfallið lækkað örlítið frá síðustu mælingu. Ríflega fjórðungur nefnir greiðslur fyrir „óunna yfirvinnu“ líkt og fyrir ári og rétt tæplega einn af hverjum fjórum fékk greitt vaktaálag sem er aukning frá árinu 2014. Rúmur fimmtungur fékk fæðishlunnindi og er það svipað og fyrir ári. Líkt og í fyrri könnunum eru þó færri konur sem fá aukagreiðslur en karlar. Um fjórðungur kvenna fá engar aukagreiðslur en aðeins 10% karla.

Könnun Gallup sýnir að óleiðréttur launamunur kynjanna á heildarlaunum fólks í fullu starfi er um 21% líkt og hefur munurinn verið svipaður síðustu fjögur ár.

Karlar í fullu starfi eru með 497 þúsund krónur á mánuði en konur 394 þúsund. Launhækkun heildarlauna hjá körlum og konum var álíka mikil þetta árið og því kemur ekki á óvart að launamunur heildarlauna haldist óbreyttur.

Þá munar um 10-22% á heildarlaunum karla og kvenna í ólíkum menntunarhópum sem konur eru lægri en karlar. Í ólíkum starfsstéttum er mestur launamunurinn í starfsstéttinni „sérhæft starfsfólk og tæknar“ og eru konur þar með 22% lægri laun en karlar. Þarna hefur launamunurinn kynjanna verið mestur undanfarin ár.

Kynbundinn launamunur heildarlauna, þ.e. þegar tekið hefur verið tillit til ýmissa þátta sem áhrif hafa á laun mælist nú tæp 9%, en mældist 10% í fyrra og 7% árið 2013. Þessar breytingar eru allar innan skekkjumarka og er því ekki hægt að segja með nægjanlegri vissu að kynbundinn launamunur hafi breyst. Við útreikninga liggja til grundvallar heildarlaun fólks í fullu starfi. Tekið er tillit til áhrifa fjölmargra þátta í útreikningunum þannig að sá munur sem fram kemur í launum karla og kvenna skýrist ekki af mismunandi vinnutíma, ólíkum starfsgreinum, atvinnugreinum, eða vegna mismunar á aldri, starfsaldri, menntun, eða mannaforráðum karla og kvenna.

Grunnlaun karla hækkuðu lítið eitt meira en kvenna þetta árið og þá jókst launamunur kynjanna hvað varðar grunnlaunin. Kynbundinn launamunur grunnlauna mælist nú 3,6% og er það í fyrsta skipti sem marktækur kynbundinn launamunur mælist í könnun SFR. Vikmörk eru 2,6% þannig að munurinn er á bilinu 1-6% með 95% vissu.

Í könnuninni er spurt um hvaða laun fólki finnist sanngjörn fyrir vinnu sína – miðað við fullt starf. Munur á sanngjörnum launum og raunverulegum launum er nú 22% og er það um tveimur prósentustigum lægra en fyrir ári. Þessi munur var mun meiri á árunum 2010-2012 en hefur lækkað jafnt og þétt síðan þá.

Líkt og áður munar talsverðu á hvað karlar og konur telja sanngjörn laun fyrir fullt starf. Konur telja sanngjarnt að fá 461 þúsund á mánuði, en karlar telja sanngjarnt að fá 576 þúsund fyrir fullt starf. Þar munar 20% á væntingum kynjanna – sem er svipaður munur og fæst ef borin eru saman heildarlaun karla og kvenna í fullu starfi. Má því segja að launavæntingar kynjanna og sá veruleiki sem kynin búa við fari saman.

Meirihluti svarenda, eða um 58%, er óánægður með launin en ánægja með laun hefur verið svipuð síðustu fimm ár. Karlar eru lítið eitt ánægðari með laun sín en konur. Af starfsstéttum eru sölu- og afgreiðslufólk og stjórnendur ánægðastar og af atvinnugreinum er mest ánægja með laun meðal fólks í heildsölu og smásölu og landbúnaði, orkustofnunum og skógrækt.
Launakönnun SFR er að vanda unnin í samstarfi við St.Rv. og VR. Það þýðir að félagsmenn allra stéttarfélaganna svara samskonar spurningalista frá Gallup. Þeir sem svara könnuninni hafa allir uppfyllt ákveðin skilyrði um starfstíma og stéttarfélagsaðild. Í launatölum er ennfremur miðað við að fólk sé í a.m.k. 70% starfshlutfalli. Hafa verður í huga að nokkur munur getur verið á svörum þeirra félagsmanna sem uppfylla þessi skilyrði og svo þeirra félagsmanna sem gera það ekki, t.d. þeirra sem eru nýir í starfi, með starfshlutfall undir 70%, eða laustengdari félögunum. Einnig er vert að hafa í huga að munur á launum félagsmanna þessara þriggja félaga stafar að hluta til af því að samsetning félagsmanna er ólík hvað varðar störf, aldur og félagsaldur.

Launin að vanda hærri á almenna vinnumarkaðinum.
Launin eru að vanda hæst hjá VR af félögunum þremur og munar töluverðu á milli launa á almennum og opinberum vinnumarkaði. Meðallaun félagsmanna í VR eru tæp 548 þúsund (uppfærð heildarlaun) en þau eru tæp 421 þúsund hjá SFR og rúm 445 þúsund hjá St.Rv. Uppreiknuð heildarlaun VR félaga eru því um 103 þúsund kr. hærri en laun St.Rv. félaga og um 127 þúsund kr. hærri en laun SFR félaga.

Launamunur milli VR, SFR og St.Rv. meðal fólks í fullu starfi
Félagsmenn í VR í fullu starfi eru með um 28% hærri heildarlaun en SFR félagar í fullu starfi og 19% hærri heildarlaun en St.Rv. félagar í fullu starfi. Eins og áður sagði stafar launamunur milli félaganna að hluta til af því að samsetning félagsmanna er ólík. Launabilið minnkar því milli almenna og opinbera markaðarins að teknu tilliti til þess að félögin eru ólík m.t.t. kyns, aldurs, starfsaldurs, vinnustunda, starfstétta, menntunar og vaktaálags. Þessi munur á heildarlaunum er nú 16% VR í vil þegar munur á VR og SFR er skoðaður og 15% VR í vil þegar munurinn á VR og St.Rv. er skoðaður. Mikið hefur dregið saman milli VR og St.Rv. frá því fyrir ári þegar munurinn var 27%, en heildarlaun St.Rv. félaga hækkuðu mest þegar bornar eru saman hækkanir félaganna þriggja. Hér ber einnig að geta þess að launamunur á milli almenna og opinbera vinnumarkaðarins er meiri hjá konum en körlum.

Heildarlaun janúarmánaðar (laun greidd 1. feb. 2015) hækkuðu um 12% á milli ára hjá St.Rv., um 6% hjá SFR og um 3% hjá VR
Eins og áður sagði hækkuðu heildarlaun VR félaga um 3% frá því fyrir ári, en laun þeirra hafa hækkað samtals um 16% frá árinu 2012. Laun SFR félaga hækkuðu um 6% milli janúar 2014 og janúar 2015, en samtals um 20% frá árinu 2012. Heildarlaun St.Rv. félaga hækkuð langmest af félögunum þremur milli ára, eða um 12%, og samtals hækkuðu laun St.Rv. félaga um 21% frá 2012, en þar höfðu leiðréttingar vegna starfsmats áhrif.

Ekki marktækar breytingar á kynbundnum launamun
Kynbundin launamunur er undir 10% hjá öllum stéttarfélögunum. Með kynbundnum launamun er átt við mun sem er á launum karla og kvenna að teknu tilliti til vinnutíma, starfsstéttar, atvinnugreinar, menntunar, starfsaldurs og aldurs. Minnstur mælist kynbundinn launamunur hjá St.Rv. eða rúm 7%, en mældist rúm 6% fyrir ári. Hjá SFR mælist kynbundinn launamunur hins vegar tæp 9%, en mældist tæp 10% fyrir ári. Hjá VR mælist kynbundinn launamunur nú tæp 10% en mældist 8,5% fyrir ári. Ekki er um marktæka breytingu að ræða á kynbundnum launamun hjá félögunum þremur.

Annar samanburður
Þegar litið er til annarra þátta má glöggt sjá að hlutfall háskólamenntaðra er svipað hjá St.Rv. og VR eða um 34%. SFR sker sig úr hópnum hvað þetta varðar en hjá SFR eru félagsmenn með háskólamenntun um 11%.

Vinnuvikan hjá félagsmönnum félaganna þriggja er áþekk. Hún er tæpir 44 tímar hjá starfsmanni í fullu starfi hjá St.Rv. og VR en tæpar 43 klst. hjá fullvinnandi félagsmanni hjá SFR.

Þegar litið er til hlunninda þá eru flestir félagsmanna VR sem fá hlunnindi eða 72% félagsmanna á móti um 63% félagsmanna SFR og 70% félagsmanna St.Rv.

Að lokum er það ánægja með launakjör. Í ljósi þess sem fram hefur komið hér að ofan er ekki að undra að félagsmenn á almenna vinnumarkaðinum eru almennt mun ánægðari með launakjör sín en félagsmenn hjá hinu opinbera en tæpur helmingur félagsmanna VR er ánægður með launakjör sín, en um fimmtungur félagsmanna St.Rv. og SFR. Hlutfall félagsmanna hjá St.Rv. sem eru ánægðir með launin eykst nokkuð milli mælinga.
Um 43% telja vinnuálag sitt of mikið (alltof mikið eða heldur of mikið), en flestir telja álagið hæfilegt eða rúm 54%. Hlutfall þeirra sem telja álag vera mikið eykst örlítið á milli ára. Margir telja einnig að álag hafi aukist á sl. 12 mánuðum, eða 56%, en þetta hlutfall var 55% fyrir ári, en þegar mest var þá sögðu tæp 61% að álag hefði vaxið.<br />
<br />
Rúmur fimmtungur á erfitt með að hætta að hugsa um vinnuna þegar heim er komið og rúmlega einn af hverjum fjórum svarendum segist vera svo þreyttur eftir að heim er komið að þeir eigi erfitt með að gera nokkurn skapaðan hlut. Rúm 10% segjast oft hafa áhyggjur af því að upp komi vandamál í vinnunni sem ekki verði við ráðið og 14% segjast oft ekki langa í vinnuna næsta dag.<br />
<br />
Karlar eiga erfiðara með að hætta að hugsa um vinnuna eftir að heim er komið en konur og það á einnig við um stjórnendur og sérfræðinga í meira mæli en aðrar stéttir. Áhyggjur af vandamálum eru algengari meðal sérfræðinga, en sjaldgæf meðal sölu- og afgreiðslufólks. Þreyta er mest áberandi meðal ungs fólks og meira áberandi meðal kvenna en karla. Algengara er meðal ungs fólks en eldra fólks að það langi ekki í vinnuna næsta dag.

Hér að neðan eru birtar niðurstöður Launakönnunar SFR 2015 í nokkrum töflum. Í töflunum eru gefin upp meðallaun starfsmanna eftir ýmsum bakgrunnsþáttum svo sem atvinnugrein og starfsstétt.

Athugið að meðaltal er ekki birt nema það séu fimm eða fleiri starfsmenn á bak við meðaltalið.

Launatöflur

 1. Meðallaun eftir starfsstétt og kyni.
 2. Breytingar á grunn- og heildarlaunum á milli ára.
 3. Grunnlaun eftir starfsstétt og bakgrunnsþáttum.
 4. Heildarlaun eftir starfsstétt og bakgrunnsþáttum.
 5. Meðallaun eftir atvinnugrein.
 6. Breytingar á grunn- og heildarlaunum milli ára eftir atvinnugreinum.
 7. Grunnlaun eftir atvinnugrein og bakgrunnsþáttum.
 8. Heildarlaun eftir atvinnugrein og bakgrunnsþáttum.
 9. Laun; heilbrigðisþjónusta.
 10. Laun; félagsþjónusta.
 11. Laun; innheimtumenn, almannatryggingar og lánasjóðir.
 12. Laun; landbúnaður, orkustofnanir og skógrækt.
 13. Laun; löggæsla, dómstólar og fangelsi.
 14. Laun; menntastofnanir, skólar og frístundaheimili.
 15. Laun; rannsókna- og eftirlitsstofnanir.
 16. Laun; heildsala og/eða smásala.
 17. Laun; opinber stjórnsýsla.
 18. Laun; önnur opinber starfssemi og þjónusta.

Skýringar
Í launatöflunum sem birtar eru hér eru gefin upp meðallaun félagsmanna eftir ýmsum bakgrunnsþáttum, þó aðallega starfsstétt. Meðaltal launa er ekki birt nema fimm eða fleiri félagsmenn hafi svarað í viðkomandi hópi. Launatölurnar í töflunni með heildar- og grunnlaunum mánaðar byggjast á svörum starfsfólks í 70-100% starfshlutfalli. Laun starfsfólks í 70-99% starfshlutfalli eru uppreiknuð miðað við 100% starf. Auk meðaltals eru einnig birt miðgildi, 25% mörk og 75% mörk í töflunum. Þær tölur gefa til kynna launadreifingu í viðkomandi starfsstétt. Miðgildi skiptir svarendahópnum í tvennt, helmingur svarenda er með lægri laun en miðgildið segir til um og helmingur með hærri laun. Talan í dálkinum 25% mörk gefur til kynna að fjórðungur svarenda er með sömu eða lægri laun en þau sem birtast í dálkinum og eru þá 75% svarenda með hærri laun. Talan í dálkinum 75% mörk gefur hins vegar til kynna að fjórðungur svarenda er með hærri laun en tilgreind eru í dálkinum á meðan 75% svarenda eru með sömu laun eða lægri.

Á grundvelli þessara talna, meðaltals, miðgildis, 25% marka og 75% marka, má meta launadreifingu samkvæmt eftirfarandi. Því breiðara sem bilið er á milli 25% marka, miðgildis og 75% marka, þeim mun meiri er launadreifingin í viðkomandi hópi. Eftir því sem bilið breikkar má segja að erfiðara sé að gera sér grein fyrir því hvaða laun eru algengust í viðkomandi starfsstétt eða hópi. Aftur á móti eru launin einsleitari í hópum eftir því sem bilið á milli þessara talna er þrengra og þá er auðveldara að gera sér grein fyrir á hvaða bili algengast er að laun séu í hópnum eða starfsstéttinni. Einnig er hægt að bera saman mismun á meðaltali og miðgildi. Ef meðaltalið er hærra en miðgildið bendir það til þess að nokkrir svarendur í hópnum hafi töluvert hærri laun en meginþorri hópsins og hífi þannig meðaltalið upp. Ef meðaltalið er lægra en miðgildið eru að líkindum nokkrir svarendur með töluvert lægri laun en meginþorri hópsins sem dregur þannig meðaltalið niður. Ef litlu munar á miðgildi og meðaltali má segja að ákveðið jafnvægi ríki í launadreifingu hópsins.