Vinnudeilusjóður SFR

Stjórn sjóðsins er skipuð 6 fulltrúm, 5 sem kosnir eru á aðalfundi til þriggja ára í senn og einum tilnefndum úr stjórn SFR. Stjórn sjóðsins fundar eftir þörfum ásamt fulltrúa frá skrifstofu SFR. Þar er fjallað um styrkveitingar vegna kjaradeilna sem eru í gangi hverju sinni, stöðu sjóðsins og ávöxtun hans. 

Stjórn sjóðsins
Einar Andrésson frá Fangelsismálastofnun
Sigurður Rafn Jóhannsson frá Vegagerðinni
Sigrún Kristjánsdóttir frá ÁTVR
Sigríður Poulsen frá Tilraunastöð HÍ að Keldum
Vésteinn Valgarðsson frá Landspítala
Bryndís Theódórsdóttir frá Vinnumálastofnun (tilnefnd af stjórn)

Tilgangur sjóðsins er að tryggja félögum SFR laun samkvæmt úthlutunarreglum þegar þeir eiga í kjaradeilum, ásamt því að greiða kostnað við kjaradeilur, þó ekki venjulegan samningskostnað. Einnig að styrkja gerð kjararannsókna og að styrkja önnur stéttarfélög sem eiga í kjaradeilum að fengnu samþykki stjórnar SFR. Iðgjald til vinnudeilusjóðs er ákveðið á aðalfundi félagsins sem setur vinnudeilusjóði reglur.

Reglur samkv. 20. gr. laga SFR

1. gr. Nafn sjóðsins
Sjóðurinn heitir Vinnudeilusjóður SFR. Sjóðurinn er í eigu SFR – stéttarfélags í almannaþjónustu. Heimili hans og varnarþing er í Reykjavík.


2. gr. Tilgangur sjóðsins
Tilgangur sjóðsins er:
a) að tryggja félögum SFR laun samkvæmt úthlutunarreglum þegar þeir eiga í kjaradeilum,
b) að greiða kostnað við kjaradeilur, þó ekki venjulegan samningskostnað,
c) að styrkja gerð kjararannsókna,
d) að styrkja önnur stéttarfélög sem eiga í kjaradeilum að fengnu samþykki stjórnar SFR.

3. gr. Tekjur sjóðsins
Tekjur sjóðsins eru:
1. Iðgjald til sjóðsins. Iðgjald ákvarðast og greiðist á sama hátt og félagsgjöld SFR.
2. Fjáröflun á vegum sjóðsins.
3. Framlög frá öðrum stéttarfélögum.
4. Önnur framlög.

4. gr. Greiðslur úr sjóðnum
Félagsmaður SFR, sem greiðir iðgjald til sjóðsins, á rétt til greiðslu úr sjóðnum. Greiðslur skulu vera fyrir tekjumissi í kjaradeilu sem SFR eða félagar í SFR eru aðilar að. Meginreglur um úthlutun úr sjóðnum skulu kynntar félagsmönnum SFR eigi síðar en við upphaf vinnustöðvunar.

5. gr. Lántökur sjóðsins
Stjórn sjóðsins er heimilt að taka lán til að auka ráðstöfunarfé sjóðsins, enda liggi fyrir samþykki stjórnar SFR.

6. gr. Stjórn sjóðsins og ávöxtun
Stjórn sjóðsins skipa fimm fulltrúar kosnir á aðalfundi til þriggja ára í senn ásamt einum fulltrúa tilnefndum úr stjórn SFR. Formaður skal kjörinn af sjóðstjórn. Stjórn sjóðsins fer með framkvæmdavald í málefnum hans, setur úthlutunarreglur og heldur gerðarbók yfir úthlutanir og annað sem varðar starf hennar. Fé sjóðsins skal ávallt ávaxta á sem tryggastan hátt. Sjóðstjórn skal tryggja að fjármagn sé laust til ráðstöfunar ef á þarf að halda.
Stjórnarmönnum er ekki heimilt að sitja samfellt í stjórn lengur en þrjú kjörtímabil (9 ár).

7. gr. Rekstur sjóðsins
Skrifstofa SFR sér um daglegan rekstur sjóðsins í umboði stjórnar hans.

8. gr. Ársreikningur og endurskoðun
Ársreikning sjóðsins skal birta með reikningum SFR og hann endurskoðaður með sama hætti og félagssjóður. Ársreikninginn skal leggja fram og afgreiða á aðalfundi með öðrum reikningum félagsins. Skýrsla yfir starfsemi sjóðsins skal fylgja skýrslu stjórnar SFR.

9.gr. Sjóðurinn lagður niður
Hætti sjóðurinn störfum og verður lagður niður ráðstafar aðalfundur SFR eignum hans.

10 gr. Breytingar á reglum sjóðsins
Reglum þessum má aðeins breyta á aðalfundi SFR og fer með þær breytingar eins og um lagabreytingar væri að ræða.

Samþykktar á aðalfundi SFR 2014.

Þetta vefsvæði notar vafrakökur

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega virkni og notendaupplifun.
Með því að nota hann samþykkir þú notkun þeirra. (Þessi tilkynning birtist vegna nýrra persónuverndarlaga.)