Félagsmanni SFR dæmdar háar skaðabætur - SÁÁ braut á starfsmanni

SÁÁ þarf að greiða fyrrverandi starfsmanni og félagsmanni í SFR alls 4,8 milljónir króna í skaðabætur, miskabætur og lögfræðikostnað vegna ólögmætrar uppsagnar samkvæmt dómi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem kveðinn var upp í dag.

Starfsstöð starfsmannsins var á Akureyri en honum var tilkynnt að til stæði að færa hann til í starfi á starfsstöð SÁÁ í Reykjavík án rökstuðnings. Héraðsdómur féllst á að flutningur starfs milli landshluta jafngildi uppsögn og dæmdi SÁÁ til að greiða starfsmanninum bætur vegna hennar.

Málið átti sér nokkurn aðdraganda. Starfsmaðurinn hóf störf hjá SÁÁ árið 2005 en flutti sig á starfsstöð samtakanna á Akureyri árið 2008 þegar hann tók við starfi dagskrárstjóra göngudeildar. Starfsmanninum var tilkynnt bréflega í október 2016 að til stæði að veita honum áminningu vegna starfa hans fyrir barnaverndarnefnd, sem ekki voru talin samrýmast störfum hans fyrir SÁÁ. Starfsmaðurinn leitaði þegar til síns stéttarfélags, SFR, sem vann að málinu með honum í kjölfarið.

SFR hélt því fram að engin haldbær rök væru fyrir áminningu sem varð til þess að SÁÁ hætti við þá aðgerð. Þess í stað fékk starfsmaðurinn bréflega tilkynningu um það í lok október 2016 að til stæði að færa hann til í starfi og að hann ætti að hefja störf við starfsstöð SÁÁ í Reykjavík 1. febrúar og að hann yrði í launuðu leyfi þangað til. Þetta taldi starfsmaðurinn jafngilda uppsögn, enda kom skýrt fram í ráðningarsamningi að starf hans færi fram á Akureyri, þar sem hann átti fjölskyldu og heimili.

Starfsmaðurinn krafði SÁÁ um greiðslu skaðabóta og einnig um greiðslu miskabóta. Hann taldi ákvörðun um að færa hann til í starfi koma í beinu framhaldi af hótunum um áminningu og vera tilraun atvinnurekandans til að losna við sig úr starfi.

Of mikil breyting

Í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur kemur fram að SÁÁ hafi hafnað öllum kröfum starfsmannsins, enda sé heimilt að færa starfsmenn milli starfsstöðva. Á þessi rök féllst héraðsdómur ekki. Í dómnum er bent á að slíkar tilfærslur verði að koma til vegna skipulagsbreytinga og ekkert bendi til þess að um neinar skipulagsbreytingar hafi verið að ræða.

„Með vísan til þess sem rakið hefur verið verður ekki fallist á það með stefnda [SÁÁ] að frammangreind ákvæði kjarasamningsins eða ákvæði ráðningarsamningsins frá 2008 hafi heimilað honum að færa stefnanda [starfsmanninn] á aðra starfsstöð. Slík breyting er of mikil til að fallist verði á það að um sé að ræða breytingu sem heimil sé á grundvelli ráðningarsamningsins sem breyting á starfssviði, auk þess sem líta verður svo á, með hliðsjón af orðalagi samningsins, að staðsetning starfsstöðvar sé hluti af ráðningarkjörum,“ segir um þetta í dómi héraðsdóms.

Ólögmæt meingerð gegn persónu og æru

SÁÁ var dæmt til að greiða starfsmanninum 3 milljónir króna í skaðabætur vegna ólögmætrar uppsagnar. Þá fær starfsmaðurinn 300 þúsund krónur í miskabætur frá sjálfseignarstofnuninni þar sem dómurinn telur uppsögnina hafa falið í sér ólögmæta meingerð gegn persónu starfsmannsins og æru hans. Við upphæðirnar leggjast vextir og dráttarvextir. SÁÁ þarf einnig að greiða málskostnað, alls 1,5 milljónir króna.

Til baka

Þjóðarsátt um bætt kjör kvennastétta?

Í gær var samþykkt þingsályktunartillaga á alþingi þess efnis að lagt verði í sérstakar viðræður við aðila vinnumarkaðarins og Samband íslenskra sveitarfélaga um sérstakt átak eða nokkurs konar þjóðarsátt, um bætt launakjör...

Formaður BSRB gefur ekki kost á sér til endurkjörs

Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB, tilkynnti stjórn bandalagsins í morgun að hún muni ekki gefa kost á sér til endurkjörs á þingi bandalagsins sem haldið verður um miðjan október. Hún mun gegna starfinu áfram til loka þings...

Hafa vinnustaðir brugðist við #metoo?

BSRB og önnur heildarsamtök launafólks ásamt Kvenréttindafélagi Íslands buðu #metoo konum til fundar í vetur um næstu skref byltingarinnar. Niðurstaða fundarins fól í sér kröfur um aðgerðir atvinnurekenda, stjórnvalda...

Þig vantar sól!

Það er brakandi blíða víða um land og laust í orlofshúsum SFR á Eiðum, Vaðnesi, Húsafelli, Drangsnesi, Hólmavík og Munaðarnesi - kíktu á orlofsvefinn gegnum Mínar síður.