Stjórn Háskóladeildar SFR skipa:

Guðrún Kristín Svavarsdóttir starfsmaður Landspítala, formaður
Augustin Dutatanye starfsmaður hjá Reykjavíkurborg
Ingiríður Blöndal hjá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu
Ólafía Sævarsdóttir hjá Tryggingastofnun ríkisins
Sólveig Jónasdóttir hjá SFR stéttarfélagi, ritari
Svanhildur Steinarsdóttir hjá Menntamálastofnun, varaformaður
Sveinn Sveinsson hjá Vinnumálastofnun, gjaldkeri (hættur haust 2017)


Samþykktir Háskóladeildar SFR

Samþykktar á stofnfundi deildarinnar 17. nóvember 2016.

1. gr.
Rétt til aðildar að Háskóladeild SFR – stéttarfélags í almannaþjónustu eiga þeir félagsmenn sem lokið hafa Bachelor - gráðu eða sambærilegu námi. Heimilt er að víkja frá fyrrgreindu skilyrði ef öll nýliðun í hlutaðeigandi fagstétt uppfyllir þau. Félagsmenn sem lokið hafa fyrsta námsári eða 60 ECTS einingum á háskólastigi hafa einnig fulla aðild að deildinni.

2. gr.
Deildin starfar í samræmi við ákvæði félagslaga SFR og samkvæmt gildandi samþykktum.

3. gr.
Viðfangsefni deildarinnar skulu vera;
    •  að gæta í hvívetna hagsmuna félagsmanna á vinnumarkaði og vera málsvari þeirra,
    •  að halda uppi kynningar- og félagsstarfi með deildarfélögum,
    •  að efla þekkingu félagsmanna og stuðla að fræðslustarfi,

4. gr.
Umsókn um aðild skal berast stjórn Háskóladeildar. Nýir félagar öðlast félagsréttindi þegar við samþykkt hennar. Verið aðildarbeiðni hafnað getur umsækjandi skotið niðurstöðunni til stjórnar SFR sem tekur endanlega ákvörðun í málinu. Umsókninni skulu fylgja upplýsingar um menntun félagsmanna.

5. gr.
Stjórn félagsins skipa sjö menn, formaður og sex meðstjórnendur, er skulu kosnir úr hópi fullgildra félagsmanna á aðalfundi til þriggja ára í senn. Formann skal kjósa sérstaklega en sex meðstjórnendur skulu kosnir í einu lagi. Stjórnin kýs úr sínum hópi varaformann, ritara og gjaldkera.
Meðstjórnendum er ekki heimilt að sitja samfellt í stjórn lengur en þrjú kjörtímabil (9 ár). Sami einstaklingur má ekki gegna störfum formanns lengur enn þrjú kjörtímabil samfellt (9 ár). Þótt formaður hafi setið í stjórn félagsins hefur það engin áhrif á þann tíma sem honum er heimilt að gegna formennsku.
Formaður fer með umboð deildarinnar til setu á þeim fundum SFR sem ákvæði eru um í 30. gr. félagslaga. Varamaður hans skal valinn úr hópi stjórnarmanna. Á aðalfundi skal einnig kjósa tvo skoðunarmenn ársreikninga.

6. gr.
Stjórnarfundi skal halda að boði formanns eða samkvæmt ákvörðun stjórnar um reglulega fundardaga. Fundir eru lögmætir ef minnst 4 mæta til fundar. Deildarfundi skal boða með auglýsingu á miðlum SFR og deildarinnar. Leitast skal við að ákveða fyrirfram allt funda- og félagsstarf deildarinnar um ákveðið tímabil í senn og tilkynna það í einu lagi. Bóka skal gerðir allra funda deildarinnar.

7. gr.
Á tímabilinu 1. mars til 15. maí skal boða til aðalfundar deildarinnar með minnst þriggja vikna fyrirvara. Eftirfarandi eru sérstök verkefni aðalfundar:
1. Stjórn deildarinnar gefur skýrslu um starfsemina á síðastliðnu ári.
2. Lagðir fram til samþykktar endurskoðaðir reikningar deildarinnar fyrir síðastliðið ár.
3. Gerð grein fyrir störfum og reikningum þeirra sjóða sem deildin hefur til umráða.
4. Tekin ákvörðun um tillögur til breytinga á samþykktum deildarinnar
5. Kosið í stjórn
    a. Kosning formanns
    b. Kosning sex meðstjórnenda
6. Félagsgjald.
7. Önnur mál.

8. gr.
Samþykktum þessum má aðeins breyta á aðalfundi og þarf 2/3 greiddra atkvæða til þess að breyting öðlist gildi og samþykki stjórnar SFR.Um háskóladeild SFR

Háskóladeild SFR var stofnuð 17. nóvember 2016 og hefur það að markmiði sínu að gæta í hvívetna hagsmuna félagsmanna á vinnumarkaði og vera málsvari þeirra. Deildin mun halda uppi kynningar- og félagsstarfi með deildarfélögum og eflir þekkingu félagsmanna m.a.með því að stuðla að fræðslustarfi.

Rétt til aðildar að Háskóladeild SFR eiga þeir félagsmenn sem lokið hafa Bachelor gráðu eða sambærilegu námi en auk þess geta þeir félagsmenn sem lokið hafa fyrsta námsári eða 60 ECTS einingum á háskólastigi einnig sótt um fulla aðild að deildinni.

Þetta vefsvæði notar vafrakökur

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega virkni og notendaupplifun.
Með því að nota hann samþykkir þú notkun þeirra. (Þessi tilkynning birtist vegna nýrra persónuverndarlaga.)